Viðskipti innlent

Gjaldeyrisútboð Seðlabankans þykir velheppnað

Gjaldeyrisútboð Seðlabankans í vikunni þykir vel heppnað því þar náðist einn minnsti munur á aflandsgengi krónunnar og því gengi, sem bankinn skráir opinberlega.

Útboðið var það stærsta síðan í júní sl. Skrifast það alfarið á mikla þátttöku í fjárfestingaleiðinni sem var sú mesta síðan í hún var fyrst kynnt til sögunnar í febrúar. Í heildina skiptu um það bil 7 milljarðar kr. um hendur og gengi krónunnar var það sterkasta gagnvart evru sem það hefur verið frá því í ágúst í fyrra, eða 233 kr. fyrir hverja evru.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að þar með hafi bilið á milli útboðsgengis og opinbers gengis farið úr 55% í 40%, sem sé jákvæð þróun og vísbending um að óþolinmæði aflandskrónu eigenda sé minni en áður var talið.

Í öðru útboði bauðst Seðlabankinn til þess að selja evrur fyrir krónur. Þar var tilboðum fyrir 6,8 milljarða kr. tekið á sama verði eða 233 kr. fyrir evruna

Í þeim sjö krónukaupaútboðum sem Seðlabankinn hefur haldið á árinu hefur bankinn losað um nær 42 milljarða kr. af aflandskrónum, en séu krónukaupaútboðin tvö í fyrra tekin með hefur aflandskrónustabbinn minnkað um 66 milljarða kr. í útboðunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×