Viðskipti innlent

Mannvit fær styrk til jarðvarmaverks í Ungverjalandi

Jarðvarmaverkefni sem Mannvit í Ungverjalandi hefur þróað í samstarfi við þarlenda aðila er meðal 23 grænna evrópskra orkuverkefna sem hlutu styrk samkvæmt NER300 áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í tilkynningu segir að verkefni Mannvits hlaut tæpar 40 milljónir evra eða rúmlega 6,6 milljarða króna, en markmið þess er að örva jarðvarmakerfi til raforkuframleiðslu í suðausturhluta Ungverjalands. Ráðgert er að vinna verkefnið á næstu árum í nánu samstarfi sérfræðinga á sviði verkfræði og jarðvísinda í Ungverjalandi og á Íslandi.

Framlag ESB til verkefnis Mannvits í Ungverjalandi nemur um 40% af heildarkostnaði verksins sem er áætlaður ríflega 100 milljónir Evra. Verkefnið hefur verið þróað í samstarfi við ungverska fyrirtækið EU-FIRE og þróunarráðuneyti Ungverjalands sem valdi verkefnið til að taka þátt í NER300 ferlinu. Í þessu ferli hefur Mannvit gegnt forystuhlutverki gagnvart Evrópusambandinu og stofnunum þess.

Afgreiðsla NER300 sjóðsins er mikilvægur áfangasigur fyrir þróun starfsemi Mannvits í Ungverjalandi sem hefur rekið dótturfélag í Búdapest frá árinu 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×