Viðskipti innlent

Leiguverð hækkaði í nóvember

Leiguverð hækkaði um 0,6% í nóvembermánuði samkvæmt mælingum Þjóðskrár Íslands sem birtir mánaðarlega vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu. Leiguverð hefur samkvæmt þessu hækkað um tæp 8% undafarna 12 mánuði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er nú að hækka hraðar en á landsbyggðinni, en samkvæmt vísitölu leiguverðs sem Hagstofan tekur saman og endurspeglar leiguverð á landinu öllu hefur leiguverð þegar landið allt er tekið saman hækkað um tæp 6% á sama tímabili.

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu er nú að hækka hraðar en íbúðaverð. Íbúðaverð hefur hækkað um rétt rúm 6% á meðan leiguverð hefur eins og fyrr segir hækkað um 8% sé miðað við undanfarið ár.

Þessi þróun endurspeglar að enn er mikil sókn í leiguhúsnæði og jafnvel hefur myndast skortur eftir leiguíbúðum á sumum svæðum. Þannig mynduðust t.d. langir biðlistar eftir íbúðum hjá Félagsstofnun stúdenta um tíma, en hátt í 1.000 manns voru á biðlista þar fyrr í haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×