Viðskipti innlent

Saksóknari verst frétta af tilkynningum RNA

Magnús Halldórsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Mörg þeirra mála sem rannsóknarnefnd Alþingis tilkynnti til embættis sérstaks saksóknara þegar hún skilaði skýrslu sinni á vormánuðum 2010, eru enn til rannsóknar hjá embættinu. Ólafur Þór Hauksson saksóknari verst frétta af gangi rannsóknanna, en segir mörg mál vera langt komin í rannsókn.

Á grundvelli laga sem rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið starfaði eftir, var henni gert að tilkynna um mál, þar sem grunur var um refsiverða háttsemi, til embættis sérstaks saksóknara. Í sjöunda bindi skýrslunnar eru málin listuð upp, undir átta efnisþáttum. Það eru grunsemdir um refsiverða háttsemi stjórnarmanna bankanna, forstjóra, endurskoðenda og forsvarsmanna rekstrarfélaga verðbréfasjóða.

Þá voru einnig tilkynnt mál sem tengdust hvatakerfum bankanna, gjaldeyrisviðskiptum þeirra við einstaka viðskiptavini, ekki síst hluthafa bankanna, og kaupum á eigin hlutabréfum, sem samkvæmt skýrslu rannsóknarnefdar Alþingis voru ekki síst til þess fallin að halda uppi fölsku verði á hlutabréfum. Sérstaklega er tilgreint í tilkynningu RNA að allir bankarnir þrír, Glitnir Landsbankinn og Kaupþing, hafi fjármagnað eigin hlutabréf langt umfram 10 prósent hámarkið í hlutafélagalögum.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki tjá sig um rannsókn þessara mála, þegar fréttastofa spurði um afdrif þessara mála. Hann sagði embættið ekki geta tjáð sig um einstök mál sem væru á rannsóknarstigi. Hann sagði þó að unnið væri hörðum höndum að rannsóknum fjölmargra mála, sem með einum eða öðrum hætti tengjast falli bankanna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×