Viðskipti innlent

Mun betri afkoma í sjávarútvegi en reiknað var með

EBITDA framlegð sjávarútvegsins (hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir) nam rétt tæpum 80 milljörðum króna á árinu 2011, eftir greiðslu á 3,7 milljörðum króna í veiðigjald, en nam tæpum 64 milljörðum króna árið 2010, eftir greiðslu á 2,3 milljörðum króna í veiðigjald. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og er vitnað til talna frá Hagstofu Íslands sem komu í morgun.

EBITDA framlegðin batnaði því um tæp 26% á milli áranna og hefur ekki verið hærri í langan tíma. Í forsendum fyrir álagningu veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 var gert ráð fyrir 72 ma.kr. EBITDA framlegð. „Niðurstaðan nú sýnir að sú spá var talsvert undir raunniðurstöðu," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Árið 2012 verður að líkindum einnig gott rekstrarár fyrir sjávarútveginn. Gengi krónunnar hefur haldist veikt, þorskkvótinn var aukinn talsvert og veiðar og vinnsla á uppsjávarfiski hafa gengið vel á árinu. Á móti hefur verð á erlendum mörkuðum lækkað, ekki síst á botnfiskafurðum. Á heildina litið eru þó afkomuhorfur góðar fyrir sjávarútveginn árið 2012. Til upplýsingar er veiðigjald á árinu 2012/2013 áætlað um 12,5-13,0 milljarðar króna," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×