Viðskipti innlent

Landsframleiðsla á Íslandi 11% yfir meðaltali ESB ríkjanna

Landsframleiðsla á mann á Íslandi, leiðrétt fyrir kaupmætti í hverju landi fyrir sig, var 11% yfir meðaltali Evrópusambands ríkjanna á síðasta ári samkvæmt tölum sem hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, hefur birt.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þessi mælikvarði sé oft notaður á velferð og virðist hún vera nokkuð viðunandi á Íslandi þrátt fyrir allt sem hér hefur gengið á í efnahagsmálum á undanförnum árum.

Ísland er með elleftu hæstu landsframleiðslu á mann á lista Eurostat yfir ríki innan evrópska efnahagssvæðisins, sem alls telur rúmlega 30 ríki. Þó að staða landsins sé betri en gerist að meðaltali í ESB hefur hún á þennan mælikvarða versnað umtalsvert á undanförnum árum. Ísland var þannig 32% yfir meðaltalinu fyrir 10 árum síðan. Þá var Ísland í 6. sætinu á lista Eurostat yfir Evrópuþjóðir.

Það land sem kemur einna best út úr þessum samanburði er Noregur. Þannig hefur það verið lengi. Var landsframleiðsla á mann í Noregi, leiðrétt fyrir kaupmætti, 89% yfir meðaltali ESB ríkjanna á síðastliðnu ári og 68% yfir því sem hún var hér á landi. Ekki er að undra að margir Íslendingar flytji til Noregs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×