Handbolti

Flensburg lék sér að meisturum Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Flensburg-Handewitt vann frábæran sex marka sigur á THW Kiel, 35-29, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel hefðu verið á toppnum í HM-fríinu ef Kiel-liðið hefði unnið þennan leik.

Tap Kiel þýðir að lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen verða á toppnum fram í febrúar en þeir hafa tveggja stiga forskot á Kiel og fimm stiga forskot á Flensburg-Handewitt.

Flensburg-Handewitt gaf tóninn strax í byrjun leiks, komst í 5-1, 10-4 og var 19-14 yfir í hálfleik. Sænski markvörðurinn Mattias Andersson var frábær í þessum leik og varði meðal annars fjögur vítaköst.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö mörk og Aron Pálmarsson var með eitt mark. Filip Jicha var markahæstur með níu mörk.

Ólafur Gústavsson var í leikmannahópi Flensburg en fékk ekkert að spila í leiknum. Þýska skyttan Holger Glandorf var með 9 mörk, danski hornamaðurinn Anders Eggert skoraði 8 mörk og Thomas Mogensen skoraði 7 mörk.

Leikmenn Flensburg fögnuðu vel sigrinum í lokin enda ekki á hverjum degi sem Kiel tapar leik í þýska handboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×