Viðskipti innlent

Erlend skuldabréfaútgáfa í bígerð hjá bönkunum

Íslensku bankarnir eru nú að undirbúa skuldabréfaútgáfu erlendis í dollurum eða evrum. Slík skuldabréfaútgáfa hefur verið óþekkt frá því fyrir hrunið 2008.

Bloomberg fréttaveitan fjallar um málið. Í frétt Bloomberg segir að Íslandsbanki sé að setja upp áætlun um skuldabréfaútgáfu í dollurum og evrum. Jón Ómarsson fjármálastjóri bankans staðfestir þetta í samtali við Bloomberg.

Arion banki er að íhuga útgáfu á erlendum skuldabréfum til einkafjárfesta. Yrði slík útgáfa undanfari þess að erlend skuldabréf bankans yrðu sett á almennan markað.

Rætt er við Eirík Jensson útlánastjóra Arion banka sem segir að fyrir ári hafi þeir þurft að fara til London ef þeir vildu hitta áhugasama fjárfesta. Nú komi fulltrúar frá erlendum fjárfestingarbönkum að meðaltali þrisvar á viku til þeirra með hugmyndir.

Jón Ómarsson segir að augljós þörf sé til staðar fyrir íslensku bankanna að fara í erlenda skuldabréfaútgáfu. Efnahagslíf Íslands sé að ná sér vel á strik og það þýði að að útflutningsgreinar landsins, og þá einkum sjávarútvegurinn, hafa þörf á að fara í nýjar erlendar fjárfestingar.

Þá kemur fram að Landsbankinn ætli sér að bíða a.m.k. fram til ársins 2015 með að gefa út skuldabréf erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×