Viðskipti innlent

FME: Athugasemdir við Lífeyrissjóð bankamanna

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert ýmsar athugasemdir við starfshætti hjá Lífeyrissjóði bankamanna. Þetta var gert í framhaldi af athugun sem FME gerði á sjóðnum s.l. vor.

Fjallað er um málið á vefsíðu FME. Þar segir að eftirlitið gerði athugasemd við að formfesta við framkvæmd fjárfestinga sé ekki í nógu góðu horfi hjá sjóðnum og að reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar séu ekki fullnægjandi.

Athugasemd var gerð við að framkvæmdastjóri hefði engar heimildir til fjárfestinga fyrir sjóðinn þar sem framkvæmdin virðist önnur miðað við gögn Fjármálaeftirlitsins. Gerði eftirlitið þá kröfu að heimildir framkvæmdastjóra endurspeglist í regluverki sjóðsins.

Ósamræmi var í skjali lífeyrissjóðsins um fjárfestingaferli, í kaflanum um stjórnendaeftirlit er vísað í reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar en þær reglur eru ekki fyrir hendi hjá sjóðnum.

Að lokum var gerð athugasemd við að skjölun verkferils við lánveitingar sé ábótavant. Samkvæmt starfsreglum framkvæmdastjóra veitir hann sjóðfélagalán en framkvæmdin er sú að framkvæmdastjóri veitir aðeins lán að uppfylltum skilyrðum sem orðið hafa til við venjur milli stjórnar og framkvæmdastjóra.

Gerð var athugasemd við að Lífeyrissjóður bankamanna hefði hvorki farið eftir eigin starfsreglum né ákvæðum um hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðalögum og stjórnsýslulögum á tímabilinu 2007-2011. Í nokkrum tilvikum sat stjórnarmaður fundi þar sem tekið var fyrir mál tengt fyrirtæki þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×