Viðskipti innlent

Rannsóknarnefnd um ÍLS skilar af sér í febrúar

Magnús Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Rannsóknarnefnd um starfsemi Íbúðalánasjóðs stefnir á að skila skýrslu sinni til Alþingis um miðjan febrúar. Forseti Alþingis fundaði með nefndinni í byrjun mánaðarins, en vinna nefndarinnar hefur reynst mun tímafrekari en gert var ráð fyrir þegar henni var komið á fót.

Rannsóknarnefnd um starfsemi Íbúðalánasjóðs var komið á fót í júní 2011, og hefur hún verið að störfum síðan. Í henni eiga sæti Sigurður Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari, sem er formaður nefndarinnar, Kirstín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, fundaði með nefndinni í byrjun mánaðarins þar sem vinna nefndarinnar var til umfjöllunar. Ásta sagði í samtali við fréttastofu í morgun að stefnt sé að því að rannsóknarnefndin um starfsemi Íbúðalánasjóðs skili skýrslu sinni um miðjan febrúar á næsta ári.

Íbúðalánasjóður stendur höllum fæti, en frá því fjármálakerfið hrundi í október 2008 hafa stjórnvöld samþykkt að leggja Íbúðalánasjóði til 46 milljarða króna til þess að styrkja eiginfjárgrunn hans. Vandi sjóðsins er þó sagður mun umfangsmeiri, í greiningu sem IFS vann fyrir stjórnvöld, en í henni kemur m.a. fram að 45 prósent lána sjóðsins, upp á ríflega 300 milljarða króna, eru á yfirveðsettum eignum. Þá hefur eftirspurn eftir verðtryggðum lánum sjóðsins minnkað mikið eftir hrunið, en óverðtryggð lán bankanna hafa notið töluvert meiri vinsælda en verðtryggð lán eftir hrunið. Þetta skapar vandamál hjá sjóðnum og eykur ójafnvægi í rekstrinum.

Vinna rannsóknarnefndarinnar byggir á þingsályktun frá því í desember 2010 þar sem lagt er upp með að nefndin svari því hvaða þættir í starfsemi sjóðsins hafi farið úrskeiðis og hvaða áhrif einstaka ákvarðanir haft haft á stöðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×