Viðskipti innlent

PWC krefst frávísunar

Magnús Halldórsson skrifar
Endurskoðunarfyrirtækið PWC krefst þess að máli slitastjórnar Glitnis gegn fyrirtækinu verði vísað frá dómi, en fyrirtaka var í málinu Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Slitstjórn Glitnis krefst viðurkenningar á bótaskyldu PWC þar sem ársreikningar bankans hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu hans.

Slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn bæði PWC hér á landi og PWC í London, vegna vinnu fyrirtækisins við endurskoðun reikninga fyrir hrun bankans. Slitastjórnin krefst viðurkenningar á bótaskyldu, en ef hún verður viðurkennd með dómi, getur slitastjórnin höfðað skaðabótamál á hendur endurskoðunarfyrirtækinu.

Mál slitastjórnarinnar byggir öðru fremur á því að endurskoðendur PWC hafi gerst sekir um vanrækslu við störf sín, og ársreikningar Glitnis hafi ekki endurspeglað raunverulega stöðu bankans fyrir hrun hans, með tilheyrandi tjóni fyrir kröfuhafa og fjárfesta. Málið hefur verið í langan tíma í undirbúningi, og byggir það meðal annars á úttektum og rannsóknum sem slitastjórnin lét gera á starfsemi bankans fyrir hrun hans.

Við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var fjallað sérstaklega um greinargerð PWC, sem er 118 síður, en dómari taldi hana vera of langa og gaf lögmönnum PWC frest til þess að stytta hana, og taka þá formlega fyrir frávísunarkröfuna sem greinargerðin rökstyður.

Málið verður tekið fyrir á nýjan leik hinn 7. febrúar á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×