Viðskipti innlent

Vextir Seðlabankans óbreyttir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.

Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að nýjustu hagtölur bendi til þess að efnahagsþróun að undanförnu hafi verið í samræmi við spá Seðlabankans frá því í nóvember. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2%, en í nóvemberspá bankans var áætlaður vöxtur á sama tímabili 2,1%. Gengi krónunnar hefur lítið breyst frá síðustu vaxtaákvörðun og verðbólga þróast eins og spáð var.

Seðlabankinn segir að laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hafi stutt við efnahagsbatann. Hækkun vaxta undanfarið rúmt ár og hjöðnun verðbólgu hafi dregið umtalsvert úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hverfur úr þjóðarbúskapnum sé nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi einnig. Að hve miklu leyti aðlögunin eigi sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans fari eftir framvindu verðbólgunnar, sem mun ráðast að miklu leyti af þróun gengis krónunnar og launaákvörðunum. Hvort nafnvextir bankans verði óbreyttir á næstunni sé m.a. háð því að endurskoðun kjarasamninga á nýju ári samrýmist hjöðnun verðbólgu að markmiðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×