Viðskipti innlent

Vaxtagjöld heimilanna hafa dregist saman

Vaxtagjöld íslenskra heimila drógust nokkuð saman árin 2010 og 2011 í kjölfar lægri vaxta og endurskipulagningar á efnahagsreikningum heimila. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn á Alþingi um vexti og framfærslukostnað.

Fjallað er um málið á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að m.a. var spurt um hlutfall vaxta af framfærslukostnaði heimilanna.

Fram kemur í svari ráðherra að ekki sé til nein opinber skilgreining á því hvernig meta skuli framfærslukostnað heimila. Í svarinu er miðað við að einkaneysla heimila alls sé ígildi framfærslukostnaðar. Vaxtagjöld eru vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa, kaupleiguíbúða og önnur vaxtagjöld heimila.

Vaxtagjöldin jukust allt til ársins 2009, en þá námu þau rúmlega 116 milljörðum króna eða sem nam 15,8% af einkaneyslu heimila alls. Árin 2010 og 2011 drógust útgjöldin síðan nokkuð saman í kjölfar lægri vaxta og endurskipulagningar á efnahagsreikningum heimila. Hlutfall vaxtagjalda af einkaneyslu heimila hefur sömuleiðis dregist saman og nam árið 2011 10,6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×