Handbolti

Stefán Rafn tryggði Löwen sigur í fyrsta leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rhein-Neckar Löwen er komið í undanúrslit þýska handboltans eftir eins marks sigur í framlengdum leik gegn Magdeburg 34-33.

Stefán Rafn Sigurmannsson spilaði sinn fyrsta leik með Löwen en hann gekk í raðir félagins á dögunum frá Haukum. Stefán Rafn skoraði fjögur mörk í leiknum og tryggði heimaliðinu sigur þegar hann kom Löwen í 34-32 mínútu fyrir leikslok.

Gestirnir frá Magdeburg minnkuðu muninn en lengra komust þeir ekki. Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar halda áfram sigurgöngu sinni. Liðið situr í toppsæti þýsku deildarinnar og nú komið í undanúrslit bikarsins.

Gestirnir frá Magdeburg byrjuðu leikinn betur og höfðu yfir í hálfleik 15-14. Þeir héldu frumkvæðinu framan af síðari hálfleik, náðu mest sex marka forystu 22-16 en þá tók Guðmundur leikhlé.

Heimamenn minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust í fyrsta skipti yfri 27-26 þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Gestirnir jöfnuðu og framlengja þurfti leikinn. Í framlengingunni höfðu heimamenn betur sem fyrr segir.

Björgvin Páll Gústavsson var í leikmannahópi Magdeburg eftir tíu vikna fjarveru vegna meiðsla. Ekki liggur fyrir hversu mörg skot Björgvin varði í leiknum.

Kiel vann öruggan sigur á Bad Schwartau 35-26 þar sem Guðjón Valur Sigurðsson skoraði tvö mörk og Aron Pálmarsson eitt.

Flensburg var án Ólafs Gústafssonar þegar liðið slátraði Nordhorn 35-19. Ólafur meiddist á æfingu í gær og óvíst hversu lengi hann verður frá keppni. Ólafur var einmitt fenginn til liðs við Flensburg frá FH vegna mikilla meiðsla í leikmannahópi félagsins.

Þá skoraði Ólafur Bjarki Ragnarsson fjögur mörk og Ernir Hrafn Arnarsson tvö fyrir b-deildarlið Emsdetten sem tapaði naumlega 30-29 gegn stórliði Hamburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×