Handbolti

Biðlað til Ólafs Stefánssonar

Guðjón Guðmundsson skrifar
Ekki er loku fyrir það skotið að Ólafur Stefánsson leiki með íslenska landsliðinu í handknattleik á HM á Spáni í janúar.

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, staðfesti í samtali við Stöð 2 í gærkvöldi að HSÍ hefði haft samband við Ólaf þegar ljóst var að Alexander Petersson ætti við meiðsli að stríða. Að sögn Arons er málið í skoðun.

Aron sagði ennfremur að það væru helmingslíkur á því að Alexander gæti leikið með íslenska landsliðinu en auðvitað væri staðan alvarleg. Rúnar Kárason væri einnig frá vegna meiðsla og hugsanlega þyrfti liðið að nota rétthentan mann hægra megin á vellinum. Þá kæmi Ólafur Guðmundsson, leikmaður Kristianstad í Svíþjóð, fyrst upp í hugann. Hann hefði leikið þessa stöðu með góðum árangri.

Aron segir ennfremur ljóst að það verður erfitt að fylla skarð Alexanders fari svo að hann verði ekki með.

Sama staða kom upp á síðasta ári í aðdraganda Evrópumótsins í Serbíu. Alexander hafði farið á kostum með Füchse Berlín í þýsku úrvalsdeildinni en kenndi sér meins í öxl. Læknateymi íslenska landsliðsins mat stöðuna þannig að hann gæti leikið sem hann og gerði. Eftir Evrópumótið kom hins vegar í ljós að Alexander þurfti á hvíld að halda, fór ekki í aðgerð og var frá í nokkurn tíma þegar þýska úrvalsdeildin hófst á nýjan leik að Evrópumótinu loknu.

Guðmundur Guðmundsson, þáverandi landsliðsþjálfari Íslands, stýrði þá einnig Rhein-Neckar Löwen líkt og hann gerir enn með góðum árangri. Þær breytingar hafa hins vegar orðið að Alexander Petersson er í dag leikmaður Löwen og þeir mega illa við því að missa hann í síðari hluta þýsku úrvalsdeildarinnar ætli liðið sér meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×