Viðskipti innlent

Seðlabankinn seldi síðustu leifarnar af Avenspakkanum

Endalokin á Avens fléttunni fóru fram í gær þegar Seðlabankinn seldi síðustu leifarnar af ríkisverðbréfum sem hann yfirtók frá Seðlabanka Lúxemborgar árið 2010.

Avenspakkinn var upp á yfir 100 milljarða króna en þetta voru ríkisbréf sem Landsbankinn hafði notað sem veð fyrir lánum frá Seðlabanka Lúxemborgar á árunum fyrir hrunið.

Skömmu eftir yfirtökuna á Avens bréfunum eða í maí 2010 var sagt frá því að samkomulag hefði náðst milli Seðlabankans og lífeyrissjóðanna um kaup á þeim íbúðabréfum sem voru hluti af þessum pakka. Nafnverð þeirra bréfa sem lífeyrissjóðirnir keyptu var rúmlega 90 milljarðar króna.

Alls tóku 26 lífeyrissjóðir þátt í því kaupunum og greiddu sjóðirnir 88 milljarða króna í evrum, eða um 549 milljónir evra fyrir íbúðabréfin.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að í gærdag hafi verið seld ríkisverðbréf upp á 2,7 milljarða króna í flokki sem rennur út árið 2019. Síðan segir að hér séu á ferð síðustu leifarnar af Avens-viðskiptunum frá 2010, þegar Seðlabankinn keypti eignasafnið af Seðlabanka Lúxemborgar og seldi að mestu leyti áfram til lífeyrissjóðanna.

Upphaflega fékk ríkissjóður ríkisbréf og ríkisvíxla fyrir samtals 8,0 milljarða kr. í Avens-viðskiptunum, en víxlarnir eru vitaskuld fyrir löngu úr sögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×