Viðskipti innlent

„Getum ekki staðið undir vöxtunum í þessu landi“

BBI skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Verðtryggingin er undarlegt kerfi sem Íslendingar hafa fundið upp til að takast á við vandamál sem tengjast því að reka lítinn gjaldmiðil. Hún er því ekki orsök skuldavandræða landsmanna.

„Það að kenna verðtryggingu um vandamál hér er eins og að kenna gifsinu um það að maður geti ekki hlaupið hratt," sagði Þórlindur Kjartansson, hagfræðingur, í útvarpsþættinum á Sprengisandi í dag þar sem rætt var um verðtrygginguna.

Rót vandamálanna telur hann felast í íslensku krónunni, en vegna hennar þurfa Íslendingar að standa undir miklum vaxtakostnaði. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, tók undir með honum.

„Við getum ekki staðið undir þeim vöxtum sem eru í þessu landi. Þess vegna bjuggum við til kerfi sem felur í sér sjálfvirka dreifingu á þeirri verðbólgugusu sem þjóðin lendir reglulega í," segir Gylfi.

Þannig er verðtryggingin ekki rót skuldavanda Íslendinga heldur tól til að dreifa byrðinni af vaxtakostnaði, en hinn valkosturinn er að fá hann allan í fangið í einu og borga meira í hverjum mánuði.

Báðir töldu þeir lausnina felast í því að taka upp annan gjaldmiðil.

„Þetta er hægt að gera miklu hraðar en stjórnmálamenn hafa haldið fram en númer eitt tvö og þrjú, þegar tekin er ákvörðun mun traust á Íslandi aukast," sagði Þórlindur Kjartansson, hagfræðingur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×