Viðskipti innlent

Skráð atvinnuleysi jókst lítillega í nóvember

Skráð atvinnuleysi mældist 5,4% í nóvember sl., 0,2 prósentustigi meira en í október, samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti fyrir helgina. Fjölgaði einstaklingum á skrá um 375 á þessu tímabili.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandabanka. Þar segir að skráð atvinnuleysi mældist innan þess bils sem Vinnumálastofnun hafði reiknað með að atvinnuleysi yrði í mánuðinum (5,2%-5,5%). Er hér um hefðbundin árstíðaráhrif að ræða, en umsvif á vinnumarkaði minnka oft þegar kemur fram á haust og vetur.

Sama þróun var uppi á teningnum á milli þessara mánaða í fyrra, en þá fór atvinnuleysi úr 6,8% í 7,1%. Í nóvember í fyrra voru að meðaltali 11.348 manns án atvinnu en í nóvember nú var þessi tala 8.562 manns og hefur atvinnulausum því fækkað um 2.786 á milli ára sem er til vitnis um bætt atvinnuástand.

Atvinnuleysi er nú eins og fyrr segir komið niður í 5,4% en var í upphafi ársins 7,2%. Sé tekið mið af fyrstu ellefu mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi að jafnaði mælst 5,3%, en á sama tímabili í fyrra var það 7,4% og hefur því komið hratt niður undanfarna mánuði.

Greiningin býst við því að atvinnuleysi muni enn fara lækkandi á næsta ári og spáir því að skráð atvinnuleysi á næsta ári verði 4,6% að meðaltali.

„Tökum við þar inn í reikninginn að bráðabirgðaákvæðið um rétt einstaklinga til atvinnuleysisbóta í fjögur ár í stað þriggja verður ekki framlengt nú um áramótin. Atvinnuleysi samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunnar mun lækka af þessum sökum, en um 3.000 einstaklingar, sem er tæplega þriðjungur af þeim sem skráðir voru án atvinnu í nóvember sl., munu fullnýta sinn bótarétt á næsta ári," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×