Viðskipti innlent

Þriðja félagið á markað í Kauphöllinni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Ómar Svavarsson, forstjóri Fjarskipta, við opnun markaðar í morgun.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Ómar Svavarsson, forstjóri Fjarskipta, við opnun markaðar í morgun. Mynd/ GVA.
Viðskipti hófust með bréf í Fjarskiptum, sem rekur Vodafone á Íslandi, í Kauphöllinni í morgun. Um er að ræða þriðju nýskráninguna á þessu ári en fasteignafélagið Reginn var skráð á markað í byrjun júlí síðastliðnum og Eimskip var skráð í Kauphöllina um miðjan nóvember. Samtals eru nýskráningarnar nú orðnar fjórar frá hruni en í desember á síðasta ári riðu Hagar á vaðið.

Greining Íslandsbanka segir að endurreisn íslenska hlutabréfamarkaðarins sé nú komin vel af stað. Fjöldi fyrirtækja sé að huga að skráningu á næstu misserum og því mun framboð á hlutabréfamarkaði enn fara batnandi.

Um klukkan ellefu í morgun var gengi Vodafone 32,2 krónur á hlut og veltan með bréf félagsins nam um 81,5 milljónum króna. Það er 2,2% yfir útboðsgengi félagsins sem var 31,5 krónur á hlut í bæði lokaða og opna hluta útboðsins sem fór fram í aðdraganda skráningarinnar.

Alls seldi Framtakssjóður Íslands 60% af hlutafé félagsins í tvöföldu útboði. Í lokaða hlutanum voru seldir 49% hlutafjár og í opna hlutanum 11%. Söluandvirði hlutanna var 6,3 milljarðar króna. Framtakssjóðurinn á eftir þessi viðskipti tæp 20% í félaginu. Lífeyrissjóður Verslunarmanna á 12,3% hlut og aðrir hluthafar eiga innan við 5% í félaginu. Eins og fram hefur komið hér á Vísi er Heiðar Már Guðjónsson stærsti einstaki eigandi félagsins í gegnum fjárfestingafélag sitt Ursus ehf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×