Viðskipti innlent

Hagstofan mælir 4,4% atvinnuleysi í nóvember

Í Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands í nóvember kemur fram að atvinnuleysi var 4.4% í mánuðinum. Að jafnaði voru 174.200manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 166.500 starfandi og 7.600 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 77,4%, hlutfall starfandi 74% og atvinnuleysi var 4,4%.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að atvinnuleysi var 0,7 prósentustigum lægra en í nóvember í fyrra en þá var atvinnuleysi 5,1%. Atvinnuleysi í nóvember í ár var 4,9% á meðal karla miðað við 5,6% í nóvember 2011 og meðal kvenna var það 3,8% miðað við 4,6% í nóvember 2011.

Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan.

Árstíðaleiðréttur fjöldi atvinnulausra í nóvember 2012 var 7.900 eða 4,5% en var 8.600 eða 4,8% í október 2012. Fjöldi starfandi í nóvember 2012 var 168.800 eða 74,9% en var 170.500 eða 76,3% í október 2012. Leitni árstíðaleiðréttingar á atvinnuleysi sýnir að síðastliðna sex mánuði hefur atvinnulausum fækkað nokkuð eða um 15,4% og hlutfallið lækkað um 0,9 prósentustig.

Ef litið er til síðustu tólf mánaða sýnir leitnin að fjöldi atvinnulausra minnkaði um 18,8% og hlutfallið lækkað um 1,2 prósentustig. Leitnin sýnir hæga þróun á fjölgun starfandi síðustu tólf mánuði eða 1,5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×