Viðskipti innlent

Aflaverðmætið jókst um 7,2% milli ára

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 122,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 samanborið við 114,5 milljarða á sama tímabili 2011. Aflaverðmæti hefur því aukist um 8,3 milljarða eða 7,2% á milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflaverðmæti botnfisks var 71,5 milljarðar og jókst um 5,6% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam 67,7 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 36,5 milljarðar og jókst um 12,8% frá fyrra ári.

Aflaverðmæti ýsu nam 9,3 milljörðum og jókst um 10,3% en verðmæti karfaaflans nam 10,3 milljörðum, sem er 7,0% aukning frá fyrstu níu mánuðum ársins 2011. Verðmæti ufsaaflans jókst um 9,3% milli ára og nam 7,0 milljarði króna í janúar til september 2012.

Verðmæti uppsjávarafla nam um 38,0 milljörðum króna í janúar til september 2012, sem er 7,6% aukning frá fyrra ári. Sú aukning skýrist að mestu af loðnuafla að verðmæti rúmum 13 milljörðum króna samanborið við 8,7 milljarða fyrstu níu mánuði ársins 2011. Einnig var 2,4 milljarða króna aukning í kolmunnaafla, sem nam um 2,7 milljörðum króna árið 2012.

Verðmæti makrílafla dróst saman um 19% á milli ára og nam tæpum 14,4 milljörðum króna í janúar til september 2012. Nær enginn annar uppsjávarafli var veiddur fyrstu níu mánuði ársins 2012, samanborið við gulldepluafla að verðmæti 261 milljón króna á sama tímabili árið 2011. Aflaverðmæti flatfisksafla nam um 8,6 milljörðum króna, sem er 12,5% aukning frá janúar til september 2011.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 58,3 milljörðum króna og jókst um 17,0% miðað við fyrstu níu mánuði ársins 2011. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 9,3% milli ára og nam 16,5 milljörðum króna. Aflaverðmæti sjófrystingar nam 42,9 milljörðum í janúar til september og dróst saman um 1,8% milli ára en verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam rúmum 4,3 milljörðum króna, sem er 16,5% samdráttur frá árinu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×