Viðskipti innlent

Byggingakostnaður hefur hækkað um 3% á árinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýbygging.
Nýbygging. Mynd/ Anton.
Byggingarvísitalan hækkaði um 0,2% frá fyrri mánuði, en hún er 115,8 stig í desember. Verð á innfluttu efni hækkaði um 0,9%, sem skýrir hækkun vísitölunnar. Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 3,1%, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Vegna þess að innleiðing nýrrar byggingarreglugerðar nr. 112 frá 2012 stendur fyrir dyrum vill Hagstofan koma því á framfæri að þessi breyting hefur ekki verðáhrif á mælingu vísitölu byggingarkostnaðar. Vísitala byggingarkostnaðar er fastgrunnsvísitala sem mælir verð á aðföngum tiltekins vísitöluhúss. Í nýrri byggingarreglugerð eru gerðar kröfur um breytta byggingarhætti og aukin gæði bygginga. Þessháttar gæðabreytingar eru innleiddar í vísitöluna með grunnskiptum, þar sem nýtt vísitöluhús er magntekið. Grunnskipti hafa engin áhrif til hækkunar eða lækkunar vísitölunnar. Hagstofan getur ekki hafist handa við grunnskipti fyrr en fyrir liggja húsbyggingar sem uppfylla nýja byggingarreglugerð og hægt er að nota við magntöku á nýjum grunni vísitölunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×