Viðskipti innlent

Magnús ráðinn forstjóri Icelandic Group

Magnús Bjarnason.
Magnús Bjarnason.
Magnús Bjarnason hefur verið ráðinn forstjóri Icelandic Group samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Magnús kemur til Icelandic Group frá Landsvirkjun þar sem hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Hann var áður framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Glitnis og leiddi þjónustu bankans við alþjóðleg orku- og sjávarútvegsfyrirtæki.

Magnús hefur víðtæka reynslu af árangursríku starfi á alþjóðamörkuðum og þekkingu á sjávarútvegi. Hann var meðal annars viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada og staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Kína. Magnús hefur setið í stjórn Icelandic Group. Hann tekur við starfinu af Lárusi Ásgeirssyni sem gengt hefur starfinu frá 2011.

Um Icelandic Group: Icelandic Group er alþjóðlegt fyrirtæki með nærri sjö áratuga sögu í íslenskum sjávarútvegi. Félagið starfar bæði á smásölumarkaði og á markaði fyrir veitingahús, mötuneyti og stofnanir. Icelandic Group framleiðir og selur ferskt, kælt og fryst sjávarfang um heim allan en á undanförnum árum hefur vöruþróun verið efld á sviði flóknari og virðisaukandi fiskmáltíða fyrir smásölumarkað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×