Viðskipti innlent

Vill að Íbúðalánasjóður bjóði ekki óverðtryggð lán: Hugi frekar að félagslegu hlutverki sínu

Unnur Brá Konráðsdóttir er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd Alþingis.
Það gengur ekki að ríkið ætli með Íbúðalánasjóð í aukna samkeppni við viðskiptabankana um Íbúðalán, segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fullltrúi í velferðarnefnd. Nefndin fundaði í morgun um stöðu sjóðsins, sem er slæm. Í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin að veita þrettán milljarða króna innspýtingu inn í sjóðinn af fjárlögum. Árið 2010 voru veittir 33 milljarðar til að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé í samræmi við lög og reglur.

Ein af höfuðástæðum fyrir vanda sjóðsins er sú að fólki býðst betri kjör á lánum hjá bönkunum, með óverðtryggðum lánum. Því hefur verið rætt um það að sjóðurinn taki upp óverðtryggð lán. „Íbúðalánasjóður á fyrst og fremst að sinna félagslegu hlutverki, en ekki að vera í samkeppni við bankana um íbúðalán," segir Unnur Brá. Hún segir að verkefnið framundan sé því að afmarka starfsemi sjóðsins þannig að þessu markmiði verði náð. Svarið við vanda sjóðsins núna sé ekki það að sjóðurinn fari að veita óverðtryggð lán í samkeppni við aðra.

Unnur Brá segir það augljóst að þetta félagslega hlutverk sem sjóðurinn ætti að reka, muni kosta skattgreiðendur pening. Fyrirkomulagið sé hins vegar mun eðlilegra en að sjóðurinn sé rekinn með tapi í samkeppni við bankana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×