Viðskipti innlent

Tilboð fyrir tæpa 10 milljarða bárust í Vodafone

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ómar Svavarsson er forstjóri Fjarskipta.
Ómar Svavarsson er forstjóri Fjarskipta.
Tilboð bárust í Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, fyrir 9,7 milljarða króna, en lokaða hluta útboðsins lauk klukkan fjögur í dag. Umframeftirspurn var 2,4 föld segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. Útboð til almennings hefst á morgun.

Lágmarksáskrift í lokaða hluta útboðsins var 50 milljónir króna. Í boði voru 40% hlutafjár í félaginu sem eru í eigu Framtakssjóðs Íslands. Byggt á niðurstöðu lokaða hluta útboðsins er verð hvers hlutar í félaginu 31,5 krónur, bæði í lokaða og opna hluta útboðsins til almennings. Ómar Svavarsson, forstjóri Fjarskipta, segir að þessi mikla eftirspurn eftir hlutum í félaginu sé mikið ánægjuefni.

Í opna hluta útboðsins til almennings verða í boði 10% hlutafjár félagsins. Opni hluti útboðsins hefst klukkan 10 á morgun og lýkur klukkan 16 á fimmtudaginn. Íslandsbanki er umsjónaraðili útboðsins.

Þessi niðurstaða útboðsins er kannski ekki síst merkileg fyrir þær sakir að IFS ráðgjöf verðlagði hlutabréf í Vodafone á 25,1 krónu og taldi best fyrir fjárfesta að halda að sér höndum í hlutafjárútboðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×