Viðskipti innlent

Þurfum minnst 1400 nýjar íbúðir á ári

Hafsteinn Hauksson.
Hafsteinn Hauksson.
Greiningardeild Arion banka spáir verðhækkun á íbúðum á næstu árum. Helstu ástæðurnar eru aukin umsvif í hagkerfinu samhliða vaxandi kaupmætti. Þá eru vaxtakjör hagstæð um þessar mundir sem eru ein afleiðing haftaumhverfis. Byggingarkostnaður er hár sem dregur úr hvata til nýbygginga. Ef verð hækkar ekki umfram byggingarkostnað er útlit fyrir að skortur verði á nýjum eignum.

Þörf er á 1400 til 1700 íbúðum á markaði næstu árum, en eftir bankahrun hefur meðaltal byggðra íbúða verið undir 200. „Ítalir eru heima hjá mömmu langt fram á fertugsaldur. Ef íslendingar ætla ekki að enda eins og þeir þarf þennan fjölda íbúða,‟ sagði Hafsteinn Gunnar Hauksson, sérfræðingur hjá greiningadeild Arion banka, á fyrirlestri hjá bankanum í dag.

Greining Arion banka telur sennilegra að minni eignir, einkum og sér í lagi í fjölbýli, hækki meira í verði en raðhús, parhús og einbýlishús. Nú þegar séu vísbendingar um að sérbýlisálagið hafi lækkað á markaði en greiningadeildin telur að sú þróun gæti haldið áfram. Það helgast einkum af því að framboð minni íbúða í fjölbýli á markaði sé takmarkað vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu ungra fasteignaeigenda og því muni nýir kaupendur á markaði þrýsta verði þeirra upp þar til eigendur slíkra eigna losna úr eiginfjárgildrunni.

Í öðru lagi telur greiningadeildin að hverfisálag miðsvæðis muni hækka en það lækkaði á flesta mælikvarða í hruninu. Þegar fasteignaverðshækkanir hafa komið fram hafa þær að öðru jöfnu verið kraftmeiri miðsvæðis en auknum kaupmætti vill fylgja aukinn vilji til að greiða hátt verð fyrir staðsetningu. Þá hefur stækkun byggðar og fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu tilhneigingu til að setja þrýsting á íbúðir í bestu hverfunum, þar sem þeim fjölgar lítið sem ekkert yfir tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×