Viðskipti innlent

Dauðalistinn ekki til

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Víglundur Þorsteinsson kynnir málstað sinn á blaðamannafundi.
Víglundur Þorsteinsson kynnir málstað sinn á blaðamannafundi. mynd/ valli.
Fjármálaeftilitið gerir ekki athugasemdir við það hvernig Arion banki háttaði tilraunum við endurskipulagningu og síðar gjaldþrot B.M. Vallá hf. Þetta segir Fjármálaeftirlitið í gagnsæisathugun sem gerð var vegna athugasemda Víglundar Þorsteinssonar, fyrrverandi forstjóra B.M. Vallár. Sagði Víglundur meðal annars að Arion banki hefði gert lista yfir fyrirtæki sem bankinn gæti haft ávinning af með því að setja þau í þrot. Kynnti hann málstað sinn meðal annars á blaðamannafundi ásamt Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni sínum.

Fjármálaeftirlitið óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum Arion banka vegna málsins. Meðal þess sem óskað var eftir voru upplýsingar um verklag bankans og viðmið sem lögð voru til grundvallar við mat á því hvort samþykkja ætti endurskipulagningu fjárhags skuldara eða hvort fara ætti fram á gjaldþrotaskipti. Bæði var óskað eftir almennum upplýsingum og sérstaklega í tengslum við B. M. Vallá.

Einnig var óskað eftir upplýsingum og sjónarmiðum bankans vegna umfjöllunar um að samningur milli „gamla Kaupþings" og Nýja Kaupþings banka hf. um skilyrtan virðisrétt, eða viðaukar við þann samning, hafi innihaldið upptalningu á fyrirtækjum sem fyrirfram hafi verið ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta yfir óháð því hvort líklegt væri að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg.

Fjármálaeftirlitið segir að svör Arion banka við fyrirspurnunum hafi verið ítarleg og studd viðeigandi gögnum. Þar hafi meðal annars komið fram lýsing á tilraunum til endurskipulagningar fjárhags B. M. Vallár hf. ásamt umfjöllun um aðdraganda gjaldþrots þess þegar tilraunir til endurskipulagningar höfðu ekki borið tilætlaðan árangur. Arion banki hafnaði því að samningur bankans við „gamla Kaupþing" um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir félög sem fyrirfram hafi verið ákveðið að gera gjaldþrota og rökstuddi bankinn þá afstöðu.

Að lokinni yfirferð þeirra gagna sem bárust frá Arion banka var það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að ekki væri tilefni til athugasemda við starfshætti bankans í tengslum við tilraunir til endurskipulagningar og síðar gjaldþrot B. M. Vallár hf. Þá telur FME að ekkert í þeim gögnum sem eftirlitið yfirfór við athugunina renni stoðum undir fullyrðingar þess efnis að áðurnefndur samningur um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir fyrirtæki sem fyrirfram hafi verið ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta á.

Í lok gegnsæistilkynningarinnar segir að, aðð teknu tilliti til framangreinds hafi FME lokið athugun á starfsháttum Arion banka í tengslum við endurskipulagningu og síðar gjaldþrot B. M. Vallár án athugasemda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×