Viðskipti innlent

Yfir 700 viðskipti með Eimskip í Ávöxtunarleiknum

Samtals áttu þátttakendur í Ávöxtunarleiknum, sem nú eru orðnir ríflega 5.500 talsins, 724 viðskipti með bréf Eimskipafélagsins á fyrsta degi á markaði sl. föstudag, en á hinum raunverulega markaði voru viðskiptin 82.

Af þessum 724 viðskiptum voru einungis 64 viðskipti söluviðskipti.

Ávöxtunarleikurinn gengur út á það að fjárfesta í félögum og eignaflokkum á íslenska markaðnum, eftir reglum leiksins, og reyna með því að ávaxta eignirnar sem best. Hver þátttakandi byrjar með 10 milljónir í spilapeningum, og freistar síðan gæfunnar í fjárfestingum.

Sá sem er efstur í leiknum núna er Stefán Jónsson en hann hefur ávaxtað spilapeninga sína um ríflega 37 prósent, frá 1. október sl. þegar leikurinn fór af stað.

Munar ekki síst um þann möguleika í leiknum, hjá mörgum þeim sem hafa ávaxtað eignir sínar vel, að geta keypt og selt innan dags, án þess að þóknanir séu greiddar, eins og í raunverulegum viðskiptum.

Til mikils er að vinna, en sigurvegarinn fær ferð til New York fyrir tvo auk þess að fá 200 þúsund krónur í sjóðum VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka. Þá fær hástökkvari mánaðarins, þ.e. sá sem nær bestu ávöxtuninni í hverjum mánuði, sérstök aukaverðlaun. Keppnistímabilinu lýkur síðan 31. maí, en spilarar geta hafið leik hvenær sem er fram að þeim tíma.

Leikurinn er í eigu Keldunnar, en samstarfsaðilar verkefnisins eru VÍB, Nasdaq OMX Kauphöll Íslands, Libra og Vísir.is.

Hér er hægt að skrá sig til leiks, og hér er facebook síða leiksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×