Viðskipti innlent

Verulegar fjárhæðir fengist frá fyrrverandi starfsmönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slitastjórn Kaupþings hefur tekist að innheimta verulegar upphæðir frá fyrrverandi starfsmönnum bankans sem fengu lán fyrir hlutabréfakaupum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var ábyrgðum á lánum tugum starfsmanna aflétt sem starfsmennirnir tóku vegna kaupa á hlutabréfum í bankanum á árunum fyrir hrun. Slitastjórnin sætti sig ekki við þessa afléttingu ábyrgða og stefndi starfsmönnunum. Nokkrir dómar hafa fallið. Meðal annars var Hannes Frímann Hrólfsson, dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúinu milljarð. Hæsta krafan hljóðar hins vegar upp á 2,6 milljarða.

„Það er búið að innheimta verulegar fjárhæðir," segir Guðni Haraldsson, lögmaður slitastjórnar Kaupþings. Hann segir að þessir peningar hafi fengist með samningum en líka eftir dómsmál. Hann segist þó ekki geta sagt nákvæmlega til um hversu háar fjárhæðir er um að ræða. „Slitastjórn tók þá ákvörðun að segja ekki frá því," segir hann. En ítrekar að um mjög háar fjárhæðir sé að ræða þó að í sumum tilfellum sé eflaust um lítið hlutfall miðað við það hve fjárhæðir krafna eru háar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×