Viðskipti innlent

Drómi svarar erindum innan eðlilegra marka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Drómi svarar erindum og kvörtunum innan eðlilegra tímamarka í langfelstum tilvikum. Þetta kemur fram í gegnsæisathugun Fjármálaeftirlitsins, sem birt er á vefsíðu stofnunarinnar í dag.

Farið var yfir átta þætti í starfsemi Dróma. Meðal annars var farið ítarlega yfir verklag Dróma við svörun erinda og kvartana. „Við athugunina kom í ljós að finna mátti tilvik þar sem svör félagsins höfðu dregist umfram það sem telja má eðlilegt miðað við umfang og efni fyrirspurnar eða kvörtunar. Í flestum tilvikum voru svör félagsins þó innan eðlilegra tímamarka að teknu tilliti til framangreindra atriða," segir í niðurstöðunum.

Þá segir að í athuguninni hafi verið upplýst að eftir að SPRON og Frjálsi fjárfestingarbankinn, en Drómi heldur utan um lánasöfn þessara stofnana, voru teknir til slita hafi verið notast við nokkur mismunandi netföng fyrir innkomin erindi. Þetta fyrirkomulag hafi valdið því að yfirsýn yfir innkomin erindi reyndist erfið. Þar af leiðandi, og áður en athugun FME hófst, vann Drómi að því að sameina eldri netföng í eitt þjónustunetfang. Nú berast öll erindi á netfangið thjonusta@dromi.is og eru lánafulltrúar félagsins ábyrgir fyrir því að erindum sem þangað berast sé svarað.

Drómi hefur legið undir miklu ámæli að undanförnu og hefur stofnunin meðal annars verið gagnrýnd harðlega fyrir hæg vinnubrögð. Gerðar hafa verið athugasemdir við það að lánasöfn Frjálsa fjárfestingabankans og SPRON hafi ekki verið inni í starfandi banka.

Hér má sjá meira um gegnsæisathugun Fjármálaeftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×