Viðskipti innlent

Íslandsbanki fellur frá þremur gengismálum

Íslandsbanki hefur ákveðið að falla frá þremur af þeim fjórum gengismálum sem bankinn ætlaði með fyrir dómastóla til að fá skorið úr álitaefnum í þeim.

Í tilkynningu frá bankanum segir að eftir dóm Hæstaréttar 15. febrúar sl. voru valin 11 prófmál til að fá skorið úr þeim álitamálum sem dómurinn lét ósvarað. Fjögur þessara mála voru á vegum Íslandsbanka. Eftir dóm Hæstaréttar þann 18. október sl. telur Íslandsbanki að flestum þeirra álitaefna hafi nú verið svarað. Bankinn fellur því frá þremur þessara mála til að flýta endurútreikningi.

Það mál sem eftir stendur snýr að fjármögnunarleigusamningum, en á greiðsluseðlunum er ekki gerður greinarmunur á afborgun og vaxtagreiðslu.

Íslandsbanki hyggst því endurreikna 14.000 ólögmæt gengistryggð lán en meðal þeirra lána eru uppgreidd lán, lán tekin til skamms tíma og lán sem farið hafa í gegnum úrræði sem bankinn bauð upp á.

Búist er við að viðskiptavinum verði birtur endurútreikningur í byrjun árs 2013. Greiðsluseðlar ofangreindra lána verða sendir út með venjubundnum hætti. Bankinn áréttar að lántakendur fyrirgera ekki mögulegum betri rétti sínum þrátt fyrir áframhaldandi greiðslur af lánum sem fara í endurútreikning enda verði fullt tillit tekið til þess við leiðréttingu eftirstöðva.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×