Viðskipti innlent

Vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum hækka

Magnús Halldórsson skrifar
Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa allir verið að hækka vexti á óverðtryggðum íbúðalánum sínum að undanförnu, í takt við vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, en stýrivextir bankans eru nú sex prósent.

Vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum Landsbankans, sem bera fasta vexti fyrstu þrjú ár lánstímans, eru nú 7,25 prósent og vextir á lánum sem eru með fasta vexti fyrstu fimm ár lánstímans eru 7,6 prósent. Óverðtryggð lán með breytilega vexti bera nú 6,75 prósent vexti.

Hjá Arion banka eru vextir á óverðtryggðum lánum, sem eru fastir í fimm ár, 7,45 prósent.

Vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum Íslandsbanka, sem bera breytilega vexti, eru nú 6,75 prósent. Óverðtryggð lán sem eru með fasta vexti fyrstu þrjú árin eru nú með fasta 7,7 prósent vexti.

Á fyrra hluta ársins voru vextir óverðtryggðra lána að meðaltali um einu prósentustigi lægri heldur en nú. Hækkunina á vöxtum að undanförnu má fyrst og fremst rekja til vaxtahækkana seðlabankans, en frá því í ágúst í fyrra og fram í nóvember á þessu ári hafa stýrivextir bankans hækkað úr 4,25 prósent í sex prósent, en verðbólga mælist nú 4,2 prósent.

Óverðtryggð húsnæðislán eru mun vinsælli en verðtryggð lán um þessar mundir, en á bilinu 70 til 80 prósent nýrra húsnæðislána bankanna eru óverðtryggð lán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×