Viðskipti innlent

Verulega dregur úr sveiflum á gengi krónunnar

Mun minni sveiflur hafa verið á gengi krónunnar það sem af er þessum mánuði en verið hefur frá því á miðju sumri.

Gengisvísitalan stendur í rúmlega 224 stigum og hefur hún verið á því róli alla vikuna. Í umfjöllun greiningar Íslandsbanka um málið segir að þetta megi teljast ansi gott miðað við þær miklu sveiflur sem hafa verið á genginu í haust.

Jafnframt er gildi vísitölunnar lægra nú en það var í lok október sl. en þá stóð gengisvísitalan í 227,3 stigum. Hefur hún þar með styrkst um rúmt 1% frá þeim tímapunkti. Þó að ekki sé um ýkja mikla breytingu að ræða er þróun í þessa átt afar kærkomin eftir þá miklu dýfu sem krónan tók nú í haust, segir í Morgunkorni greiningarinnar.

Frá því um miðjan ágúst til októberloka veiktist gengi krónunnar um heil 9,0% en sú lækkun átti m.a. rætur sínar að rekja til útflæðis tengt vaxtagreiðslum og uppgreiðslu erlendra lána. Virðist sem meira jafnvægi sé komið á gjaldeyrismarkaðinn þ.a. annað hvort hefur dregið úr þessu mikla útflæði eða að innflæði hafi aukist á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×