Viðskipti innlent

Mál þrotabús Baugs gegn Jóni Ásgeiri tekið fyrir

Magnús Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs.
Fyrirtaka er í skaðabótamáli þrotabús Baugs Group gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi stjórnarformanni félagsins, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en búið krefur Jón Ásgeir persónulega um fimmtán milljarða króna.

Málið snýst um það þegar Hagar voru seldir frá Baugi til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf. í lok júní 2008, í fléttu sem kölluð var Project Polo. Málið var höfðað í lok árs 2010 og þingfest í febrúar 2011.

Fimmtán milljarðar af söluverðinu fóru beint í það að kaupa hlutabréf í Baugi af fjórum félögum, sem öll voru í eigu stjórnarmanna Baugs. Félögin voru Gaumur og Gaumur Holding, í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, ISP eignarhaldsfélag, í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, og Bague SA, í eigu Hreins Loftssonar.

Skiptastjóri Baugs, Erlendur Gíslason hrl., lítur svo á að á þessum tíma hafi bréfin í Baugi verið nær einskis virði og Jón Ásgeir hafi með þessu misnotað aðstöðu sína hjá Baugi til að koma verðmætum frá félaginu, í vasa sjálfs sín og sér nákominna.

Ingibjörgu og Hreini er hins vegar ekki stefnt í málinu, ekki frekar en öðrum stjórnarmönnum, þar sem Jón Ásgeir er talinn hafa borið mesta ábyrgð á fjárfestingum félagsins, eins og það er orðað í stefnu.

Jón Ásgeir hefur neitað því alfarið að málið sé með einhverjum hætti óeðlilegt. Í viðtali við Fréttablaðið 15. júní fyrra, þegar greint var frá málinu, sagði hann að salan á Högum hafi verið að undirlagi viðskiptabanka Baugs, Kaupþings á þeim tíma. Þá segir hann að Baugur hafi ekki tapað á viðskiptunum og þau hafi fyrst og fremst verið hugsuð til þess að lækka skuldir Baugs.

Fyrirtakan í dag er hluti af málsmeðferðinni fyrir dómstólum, þar sem gögn eru lögð fram, en ekki liggur fyrir enn hvenær aðalmeðferð í málinu fer fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×