Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóð vantar 12 milljarða króna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sérstök nefnd sem fjallaði um málefni Íbúðalánasjóðs hefur skilar ríkisstjórninni skýrslu með tillögum. Sjóðinn vantar 12 milljarða króna til að uppfylla kröfur um eigið fé.
Sérstök nefnd sem fjallaði um málefni Íbúðalánasjóðs hefur skilar ríkisstjórninni skýrslu með tillögum. Sjóðinn vantar 12 milljarða króna til að uppfylla kröfur um eigið fé.
Íbúðalánasjóð vantar tólf milljarða króna til að uppfylla kröfur um eigið fé. Forstjóri sjóðsins segir að ekki verði komist hjá því að ríkið leggi sjóðnum til fé. Til stendur að kynna úrræði til að bjarga sjóðnum á þriðjudag en opinber nefnd hefur að undanförnu fjallað um málefni sjóðsins.

Ríkisstjórn Íslands hefur sérstaklega fjallað um stöðu Íbúðalánasjóðs um helgina. Ljóst er að ríkissjóður þarf að leggja sjóðnum til þess að rétta af laka stöðu hans, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu vantar sjóðinn 12 milljarða króna til að uppfylla kröfur um eigið fé.

Opinber nefnd hefur að undanförnu fjallað um málefni sjóðsins og hefur kynnt ríkisstjórninni þær leiðir sem standa til boða í sérstakri skýrslu um stöðu Íbúðalánasjóðs. Í þessari nefnd sátu m.a skrifstofustjóri fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og aðstoðarmaður atvinnuvegaráðherra. Til stendur að kynna þessar leiðir á þriðjudaginn næstkomandi.

Eins og áður segir vanta sjóðinn 12 milljarða króna til að uppfylla kröfur um eigið fé. Ljóst er að þessir peningar þurfa að koma frá ríkissjóði, en þetta verður í annað sinn frá hruni sem ríkið hleypur undir bagga. Í desember 2010 samþykkti Alþingi að veita sjóðnum 33 milljarða króna.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, baðst undan viðtali en sagði að stjórn sjóðsins myndi á næstunni fara ítarlega yfir skýrslu nefndarinnar. Sigurður sagði að í sínum huga væri alveg klárt að ekki yrði komist hjá því að leggja sjóðnum til fé frá ríkinu.

„Númer eitt, tvö og þrjú þarf sjóðurinn að uppfylla eiginfjárkröfuna. Það lykilforsenda, en síðan eru ýmsir hlutir sem sjóðurinn getur unnið í og er að gera núna," sagði Sigurður.

Rannsóknarnefnd á vegum Alþingis um málefni Íbúðalánasjóðs lýkur senn störfum en nefndin hefur rannsakað starfsemi sjóðsins frá síðustu aldamótum og til dagsins í dag. Á skýrslan að liggja fyrir um næstu áramót, samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×