Viðskipti innlent

Moody´s: Icesave málið gæti sett Ísland í ruslflokk

Matsfyrirtækið Moody´s hefur ákveðið að halda lánshæfiseinkunn Íslands áfram í lægsta fjárfestingarflokki. Neikvæð niðurstaða í Icesave málinu myndi fella einkunnina niður í ruslflokk.

Lánshæfiseinkunn Moody´s er með neikvæðum horfum sem þýðir að matsfyrirtækið reiknar með að einkunnin muni lækka í náinni framtíð. Neikvæð niðurstaða í Icesave málinu fyrir EFTA dómstólnum er eitt af þremur atriðum sem geta fellt lánshæfi Íslands niður í ruslflokk. Hin tvö atriðin eru mikið útflæði fjármagns og óstöðugleiki sem gæti orðið vegna afnáms gjaldeyrishaftanna og aukin vandamál í bankakerfinu sem enn er veikburða.

Þetta kemur fram á vefsíðu Seðlabankans þar sem fjallað er um ákvörðun Moody´s. Jákvæðu fréttirnar eru að íslenska hagkerfið, opinber fjármál og þróun skulda hins opinbera eru talin vera á réttri leið, að mati Moody´s. Þá hefur verulega hefur dregið úr halla á ríkissjóði.

Einnig býst matsfyrirtækið við að efnahagsleg endurreisn Íslands haldi áfram á viðunandi hraða þrátt fyrir áhættu vegna afturkipps í löndum innan Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×