Viðskipti innlent

MP banki hagnaðist um 470 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.
Um 470 milljóna króna hagnaður varð af rekstri MP banka fyrstu níu mánuði ársins fyrir skatta, samanborið við 847 milljóna króna tap árið 2011. Hagnaður eftir tekjuskatt og bankaskatta nam 372 milljónum króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá MP banka.

Þriðji ársfjórðungur skilaði bestu afkomu ársins en hagnaður fjórðungsins nam 270 milljónum króna fyrir skatta og 253 milljónum króna eftir skatt.

Heildareignir jukust um 46% fyrstu 9 mánuði ársins og námu 73,2 milljörðum króna í lok þess. Útlán hafa vaxið um 78% og námu 23,6 milljörðum króna. Innlán jukust jafnframt um 46% á tímabilinu og námu 53,5 milljörðum króna, að meðtöldum peningamarkaðslánum.

Bankinn hafði 29,6 milljarða króna í handbæru fé eða ígildi þess við lok tímabilsins. Hækkunin frá áramótum nemur 156%.

Rekstrartekjur námu tæplega þremur milljörðum króna. Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu voru 1.303 milljónir króna. Hreinar þóknanatekjur námu 983 milljónum króna og hreinar fjárfestingartekjur voru 478 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.

„MP banki er að vaxa samkvæmt metnaðarfullum áætlunum og gott betur því nú hefur afkoma bankans verið jákvæð fjóra ársfjórðunga í röð. Við ætlum okkur að vera skýr fyrsti valkostur fyrir atvinnulífið og erum á góðri leið að því markmiði. Við höfum aukið útlán okkar til atvinnulífsins um 210% á rúmu ári eða um 16 milljarða," segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í tilkynningu.

Hann segir að hlutafjáraukning upp á tvo milljarða muni styrkja bankann enn frekar.

„Við gerum ráð fyrir því að útlán okkar til fyrirtækja muni aukast umtalsvert á næstunni nú þegar fyrirtæki sjá fram á að losna úr samningum við aðrar fjármálastofnanir og gengislán verða endurreiknuð í síðasta sinn. Útlánageta bankans er í dag um 25-30 milljarðar en mun aukast í um 50 milljarða eftir fyrirhugaða 2 milljarða hlutafjáraukningu. Hlutafjáraukningin mun gera bankanum kleift að vaxa í takt við þarfir atvinnulífsins og geta boðið nánast öllum fyrirtækjum landsins heildarfjármögnun," segir Sigurður Atli Jónsson.

Helstu upplýsingar úr rekstri og efnahag á fyrstu níu mánuðum ársins:

* Útlán til viðskiptavina hafa aukist úr 7,6 milljörðum króna í 23,6 milljarða króna frá 30. júní 2011 til 30. september 2012.

* Innlán og peningamarkaðsinnlán hafa aukist um 46% á árinu og eru nú 53,5 milljarðar króna.

* Hreinar rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi 2012 námu 980 milljónum króna samanborið við 378 milljónir króna á þriðja fjórðungi síðasta árs.

* Hagnaður fyrir skatta á þriðja fjórðungi þessa árs nam 270 milljónum króna en á sama tíma í fyrra var 166 milljóna króna tap af rekstri bankans.

* Eiginfjárhlutfall bankans nam 14,3%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×