Viðskipti innlent

Önnur lokunin í Kauphöllinni á innan við viku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Erlingsson er forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson er forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Á annað sinn á innan við viku eru viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs stöðvuð í Kauphöll Íslands. Á fimmtudaginn voru þau stöðvuð eftir að heilsíðugrein með viðtali við Sigurð Erlingsson birtist í Viðskiptablaðinu og á vef blaðsins. Í greininni var sagt frá því að til stæði að gera breytingar á skilmálum Íbúðalánasjóðs, þannig að skuldirnar verði innkallanlegar. Strax um morguninn voru viðskipti stöðvuð um stundarsakir vegna fréttarinnar. Íbúðalánasjóður bar fréttina til baka í tilkynningu sem send var á fjölmiðla.

Í morgun sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, við Bloomberg fréttastofuna að breyta þyrfti skilmálum á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs með þessum sama hætti og greint var frá í Viðskiptablaðinu. Viðskipti hafa nú verið stöðvuð í Kauphöllinni með skuldabréf Íbúðalánasjóðs.

Þá hefur Landsbréf, verðbréfafyrirtæki Landsbankans, lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskirteini í þeim sjóðum sem eiga skuldabréf Íbúðalánasjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×