Viðskipti innlent

Draga úr fyrirhugaðri skattahækkun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að draga úr fyrirhugaðri skattahækkun á gististaði. Skatturinn verður fjórtán prósent en ekki tuttugu og fimm komma fimm eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir þetta breyta afar litlu fyrir greinina .

Stjórnvöld boðuðu í sumar hækkun á virðisaukaskatti á gististaði úr sjö prósentum í 25,5%. Aðilar ferðaþjónustunnar gagnrýndu þetta harkalega. Nú hefur ríkisstjórnin dregið þessa hækkun til baka að hluta og nú er lagt til að skatturinn verði 14 prósent.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að það séu vonbrigði að stjórnvöld hafi ekki hlustað á tillögur samtakanna um að fara aðrar leiðir í þessum efnum.

„Við höfum lagt alveg gríðarlega áherlsu á það við stjórnvöld að við getum ekki fengið á okkur hækkaða skatta með minna en 20 mánaða fyrirvara. Það er löngu búið að verðleggja næsta ár og það er búið að selja stóran hluta sumarsins," segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF.

Erna gagnrýnir stjórnvöld fyrir samráðsleysi.

„Við fréttum af upphaflegum tillögum í fjölmiðlum. Þá var settur á starfshópur sem átti að fjalla um þetta en um leið og við komum með okkar tillögur var þeim stungið undir stól og það hefur ekki verið fundað síðan. Nú fréttum af þessu 14 prósenta þrepi í fjölmiðlum í dag, þannig að samráðið heur ekki verið mikið," segir Erna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×