Viðskipti innlent

Ísland kemur vel út í nýrri skýrslu OECD

Í frétt á Reuters um nýja skýrslu OECD um efnahagshorfurnar í heiminum er fjallað sérstaklega um Norðurlöndin og þar kemur Ísland vel út í samanburðinum að Noregi frátöldum.

Rífandi gangur er í efnahagslífi Noregs og þar verða stjórnvöld að passa upp á að halda verðbólgu í skefjum og koma í veg fyrir fasteignabólu. Hvað Ísland varðar er nefnt til sögunnar að hagvöxtur hér er 2,5% í ár og eykst í 2,7% á næsta ári. Ísland sé í góðri uppsveiflu eftir hrunið 2008.

Útlitið er dekkra hjá Dönum, Svíum og Finnum. Yfirvöld í þeim löndum verði að örva efnahagslífið enn frekar ef hagvöxtur tekur ekki við sér á næsta ári. Nefna má að OECD reiknar með að hagvöxtur í Svíþjóð fari úr tæpum 4% í ár og niður í rúmt prósent á næsta ári. Í Danmörku er aðeins gert ráð fyrir 0,2% hagvexti. Finnar tilheyra evrusvæðinu og þar er aðeins gert ráð fyrir rúmlega eins prósents hagvexti á næsta ári.

Hvað aðrar vestrænar þjóðir varðar er útlitið ekki bjart samkvæmt skýrslunni. OECD reiknar með að samdráttur verði í efnahagslífi evrusvæðisins í heild á næsta ári og að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði minni en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Áfram er spáð miklu atvinnuleysi á evrusvæðinu og að það fari í tæp 12% á næsta ári en í augnablikinu mælist það rúm 11%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×