Viðskipti innlent

Bankarnir hagnast um 44,2 milljarða á níu mánuðum

Magnús Halldórsson skrifar
Bankarnir, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, hafa nú allir kynnt afkomu sína fyrir þriðja ársfjórðung, og liggja upplýsingar um rekstrarafkomu fyrir fyrstu níu mánuði ársins því fyrir. Samanlagður hagnaður bankanna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 44,2 milljörðum króna, en Arion banki hagnaðist um 14,5 milljarða, Landsbankinn um 13,5 milljarða og Íslandsbanki, sem kynnti uppgjör sitt í morgun, um 16,2 milljarða.

Eigið fé bankanna allra hefur aukist nokkuð á þessu ári og nemur það um 480 milljörðum króna, eða um 30 prósentum af árlegri landsframleiðslu Íslands, sem var 1.620 milljarðar í fyrra. Það telst hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði, en stærð bankakerfisins íslenska er nú tæplega tvöföld á við árlega landsframleiðslu Íslands. Til samanburðar má nefna að stærð bankakerfisins íslenska fyrir hrunið í október 2008 var um tíföld á við árlega landsframleiðslu Íslands.

Nokkur óvissa er þó enn fyrir hendi, þegar kemur gengistryggðum lánum bankanna, sem gæti haft áhrif á eiginfjárstöðu þeirra. Fjármálaeftirlitið hefur þó sagt að óvissa um gengistryggðu lánin ógni ekki stöðu bankanna.

Landsbankinn sker sig nokkuð úr þegar kemur að afkomu á síðustu þremur mánuðum þriðja ársfjórðungs, þ.e. í júlí, ágúst og september, en hagnaður bankans nam þá tæplega 1,7 milljörðum króna, sem er mun minna en á fyrri helmningi ársins. Skýrist þetta öðru fremur af virðisrýrnun lánasafns og auknum rekstrarkostnaði vegna gjaldfærslu í tengslum við starfslok og hagræðingaraðgerðir.

Í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands um álitamál er tengjast fjármálastöðugleika íslenska hagkerfisins, hefur einnig verið fjallað ítarlega um skuldir nýja Landsbankans við gamla Landsbankann í erlendri mynt, en Seðlabankinn telur nauðsynlegt að endursemja um þessar skuldir, og lengja í lánum. Eins og mál standa nú þarf hinn endurreisti Landsbanki að greiða af skuldabréfum upp á rúmlega 200 milljarða, í erlendri mynt, sem eru á gjalddaga frá 2015 til 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×