Viðskipti innlent

Spáir hækkun stýrivaxta í vikunni

Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 14. nóvember næstkomandi.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að meginforsenda hækkunarinnar mun vera dekkri verðbólguhorfur í ljósi þróunar gengis krónunnar undanfarið. Á móti vegur að heldur hægir nú á vexti innlendrar eftirspurnar og að verðbólguþróunin undanfarið hefur verið öllu hagfelldari en gert var ráð fyrir í síðustu spá Seðlabankans, sem er frá því í ágúst sl.

„Þar sem öfl þessi toga í báðar áttir og ljóst er að talsvert skiptar skoðanir eru innan peningastefnunefndarinnar um hvert skuli fara með stýrivextina er umtalsverð óvissa í þessari spá," segir í Morgunkorninu.

Gangi spáin eftir verða daglánavextir bankans eftir vaxtahækkunina 7,00%, vextir af lánum gegn veði til sjö daga 6,00% hámarksvextir á 28 daga innistæðubréfum 5,75% og innlánsvextir 5,00%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×