Viðskipti innlent

Lambatyppi og lungu eru orðin útflutningsvara

Sífellt fleiri aukaafurðir úr sauðfjárslátrun hérlendis eru orðnar að útflutningsvörum. Í haust bættust lambatyppi og lungu við þessa flóru í fyrsta sinn.

Þetta kemur fram í yfirliti frá Sláturfélagi Suðurlands um sauðfjárslátrunin í ár. Þar segir að vaxandi eftirspurn sé erlendis eftir þessum aukaafurðum en helstu markaðir fyrir þær eru í Evrópu, Asíu og Rússlandi. Fyrir utan nýmæli eins og lambatyppin og lungun má nefna vambir, garnir, ýmiskonar fitu og afskurð.

Sláturfélag Suðurlands slátraði samtals rúmlega 104 þúsund dilkum í ár, þar af tæplega 8.400 fullorðnum kindum. Var það um 4% aukning frá slátruninni í fyrra.

Meðalþyngd dilka var rúmlega 16,3 kg í ár og hefur aldrei verið hærri í 105 ára sögu félagsins. Til samanburðar var meðalþyngdin 15,7 kg í fyrra og hefur því hækkað um ríflega 600 grömm milli ára.

Fram kemur í yfirlitinu að það færist í vöxt að bændur taki heim fé til eigin sölu eða verkunar sem er áhugaverð viðbót við íslenskan kjötmarkað. Sláturfélagið leggur þessu verkefni lið með því að hluta kjöt og ganga frá því í vandaðar pakkningar og hefur útbúið sérmerkingar í þessum tilgangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×