Viðskipti innlent

Gylfi: Nauðsynlegt að fylgjast grannt með alþjóðamörkuðum

Magnús Halldórsson skrifar
Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.
Það þarf að fylgjast grannt með því hvernig erfiðleikar á alþjóðamörkuðum hafa áhrif á íslenskt efnhagslíf, segir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi ráðherra viðskipta- og efnahagsmála.

Erfiðleikar á alþjóðamörkuðum eru þegar farnir að hafa áhrif á íslenskan efnahag, en eins og fréttastofa greindi frá í síðustu viku hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fundið fyrir erfiðleikum við að selja fisk víða, ekki síst í Suður-Evrópu, en það svæði, og þá ekki síst markaðir í Portúgal og á Spáni, hefur lengi verið mikilvægt markaðssvæði fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Atvinnuleysi í Evrópu er nú að meðaltali ríflega 11 prósent, samkvæmt tölum Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins. Mest er það á Spáni, eða um 25 prósent.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskipta- og efnahagsráðherra, segir að fylgjast þurfi grannt með því hvernig mál þróast erlendis, þar sem það hafi bein áhrif á íslenska hagkerfið, þá helst útflutningsfyrirtæki. Miklu skiptir að fyrirtæki og hið opinbera haldi vel á spöðunum með það að markmiði að gera sem best úr erfiðri stöðu.

„Það skiptir miklu máli fyrir íslenskt efnahagslíf hvernig staða efnahagsmála er á alþjóðamörkuðum, og þá ekki síst í Evrópu, sem er okkar stærsta viðskiptasvæði og þaðan koma einnig flestir ferðamenn. Það er því nauðsynlegt að fylgjast vel með þróun mála, ekki síst til þess að sjá hvenær og hvernig áhrifin af erfiðleikum erlendis koma fram hér," segir Gylfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×