Viðskipti innlent

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað í ár

Skuldir fyrirtækja námu um 169% af vergri landsframleiðslu í lok þriðja ársfjórðungs þessa árs og höfðu lækkað talsvert frá upphafi ársins þegar þær námu um 201% af landsframleiðslu. Á sama tíma höfðu skuldir heimila lækkað um sem nemur 6 prósentum af landsframleiðslu og námu um 108% af landsframleiðslu í lok september á þessu ári.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans. Þar segir að skuldir einkageirans höfðu því lækkað í um 280% af landsframleiðslu um mitt þetta ár frá því að vera um 510% þegar þær náðu hámarki haustið 2008.

Fjármálaleg skilyrði heimila og fyrirtækja hafa í meginatriðum haldið áfram að batna á árinu. Samhliða lækkun skulda einkageirans hefur eignaverð hækkað sem eykur hreint virði heimila og fyrirtækja og þar með veðrými þeirra til aukinnar lántöku.

Skráðir vextir innlánsstofnana á verðtryggðum húsnæðislánum hafa einnig lækkað á árinu. Þannig eru vegnir meðalvextir stóru bankanna þriggja á verðtryggðum húsnæðislánum nú rúmlega 4,3% og hafa lækkað um 0,8 prósentur frá ársbyrjun.

Á móti hafa vextir á almennum neyslulánum og óverðtryggðum húsnæðislánum hækkað i takt við hækkun vaxta Seðlabankans.

Sambærileg þróun hefur verið í vaxtakjörum fyrirtækja. Fjölbreytni í fjármögnun þeirra virðist einnig vera að aukast á ný en fyrirtæki hafa í auknum mæli sótt sér fjármagn með skuldabréfaútgáfu, auk þess sem aukið líf virðist vera að færast í innlendan hlutabréfamarkað, þótt enn séu umsvif þar afar takmörkuð.

Útlit er fyrir að fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja haldi áfram að batna í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október sl. um gildi fullnaðarkvittana vegna uppgjörs ólöglegra gengistryggðra lána, að því er segir í Peningamálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×