Grunur leikur á að stýrimaður Polfoss, sem strandaði við eyjuna Altra í norðurhluta Noregs klukkan sex í morgun, hafi verið sofandi þegar skipið strandaði.
Þetta kemur fram á vefsíðu norska ríkisútvarpsins, NRK, en þar eru þessar upplýsingar hafðar eftir lögreglunni sem segir að skipstjórinn hafi haldið þessu fram.
NRK vitnar þarna í héraðsfréttablaðið Helgelands sheet. Þá kemur einnig fram í frétt NRK að skipið hafi verið á fullri ferð þegar það strandaði.
Skipverjar hafa það gott samkvæmt frétt Vísis frá því fyrr í morgun en vonast er til að skipið komist aftur á flot eftir hádegi. Skipið var að flytja 1800 tonn af frystum fiski þegar það strandaði.
Uppfært: Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta staðfest upplýsingarnar en að þetta væri eitt þeirra atriða sem væri kannað. Skipið siglir núna til hafnar fyrir eigin vélarafli. Og þá munu sjópróf fara fram.

