Viðskipti innlent

Drómi ætlar að hefja endurútreikning strax

JMG skrifar
Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Helgi Hjörvar er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. mynd/ anton brink.
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði í morgun með fulltrúum Dróma og Lýsingar vegna vaxtadóms Hæstaréttar á fimmtudag. Samkvæmt dómi Hæstaréttar var Arion banka óheimilt að reikna vexti afturvirkt af ólöglegum gengistryggðum lánum, þar sem stefnandi, sem var Borgarbyggð, hafði staðið í skilum og fullnaðarkvittanir lágu fyrir.

Helgi Hjörvar formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir í samtali við fréttastofu að forsvarsmenn Dróma hafi tilkynnt nefndinni á fundinum að þeir ætluðu strax að hefja endurútreikning á öllum gengistryggðum lánum hjá sér sem falla undir dóminn. Dómur Hæstaréttar á fimmtudag byggði meðal annars á fordæmi frá 15.febrúar síðastliðnum, þar sem Hæstiréttur dæmdi í máli tveggja hjóna gegn Dróma.

Helgi segir forsvarsmenn Lýsingar hins vegar telja að hann sé ekki fordæmisgefandi fyrir þau gengistryggðu lán sem Lýsing hafi veitt. Hann segir að Lýsing muni þurfa að útskýra þær forsendur betur og hefur kallað þá ásamt lögfræðingum aftur til fundar við nefndina á miðvikudag.

Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði líka með forsvarsmönnum Arion banka, Landsbanka og Íslandsbanka fyrir helgi og segist Helgi Hjörvar búast við viðskiptabankarnir muni hefja endurútreikning sem fyrst en Landsbankinn hefur þegar tilkynnt að þau lán bankans sem falla undir forsendur dómsins verði endurreiknuð og leiðrétt gagnvart skuldurum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×