Fastir pennar

Vinstri, hægri snú

Magnús Halldórsson skrifar
Opinberar skuldir ríkisins og sveitarfélaga nema ríflega 140 prósent af landsframleiðslu þegar allt er talið, eða sem nemur yfir 2.300 milljörðum íslenskra króna. Þar af er skuldsetning ríkissjóðs ríflega 100 prósent af landsframleiðslu, eða sem nemur milli 1.600 og 1.700 milljarðar króna.

Svona stór vandamál kalla á stórar aðgerðir. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi það á dögunum að það þyrfti að skera meira niður í opinberum rekstri heldur en þegar hefur verið gert. Það væri óhjákvæmilegt og það væri ekki hægt að hlífa stærstu málaflokkunum, sem teljast til velferðarkerfisins, í þeim efnum. Ýmsir stjórnarliðar VG og Samfylkingarinnar voru fljótir að hamra á kosningajárninu og segja þetta vera skýrt dæmi um hvað Sjálfstæðisflokkurinn vildi; skera niður velferðarkerfið, lækka skatta og halda áfram að grilla á kvöldin.

Persónulega finnst mér ekkert athugavert við þessar hugmyndir Bjarna og fullkomlega eðlilegt að hafa þá skoðun að það þurfi að skera meira niður. Viðbrögðin frá stjórnarliðunum eru fyrst og síðast til marks um að það er kosningavetur framundan. Þá nýta stjórnmálamenn oft öll tækifæri til þess að brýna sverðin, og skerpa á línunum í sandinum. Vinstri hægri.

Alveg frá hruni hefur ein leið verið fær til þess að minnka vaxtakostnað ríkissjóðs, styrkja eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og lífeyrissjóðakerfið í leiðinni. Beinlínis bæta stöðu efnahagsmála í landinu.

Ríkið getur selt 40 prósent hlut í Landsvirkjun til fagfjárfesta, að langmestu leyti íslenskra lífeyrissjóða. Miðað við hóflega verðlagningu á Landsvirkjun, þ.e. innra virði eingöngu (price to book 1) þá er 40 prósent hlutur ríkisins um 80 milljarða króna virði. Eðlilegt söluverð á hlutnum ætti hins vegar frekar að vera nálægt 1,5 til 2 sinnum innra virði. Það þýðir að 40 prósent hlutur í fyrirtækinu er 120 til 160 milljarða króna virði. Þrennt mikilvægt myndi gerast ef þetta yrði gert.

1. Ríkið myndi fá fjármuni til þess að minnka skuldsetninguna strax og draga úr vaxtakostnaði. Miðað við fjárlög þessa árs er hann áætlaður 78 milljarða króna, og er næst stærsti útgjaldaliður ríkisins. Samt er fjármagnskostnaði haldið niðri með gjaldeyrishöftum samkvæmt Seðlabankanum. (Hægt er að skoða þetta í nákvæmisatriðum hér, á hagtöluvef Vísis og Datamarket).

2. Eitt stærsta efnahagsvandamál Íslands eru einhæfar leiðir til þess að ávaxta lífeyrisgreiðslur almennings. Þannig er um helmingur eigna lífeyrissjóðanna bundinn í opinberum skuldum. Ef að lífeyrissjóðirnir fengju þennan fjárfestingakost, þá væri það ígildi þess að fjárfesta í góðum erlendum eignum, þar sem tekjustreymi og efnahagur Landsvirkjunar er í Bandaríkjadölum. Auk þess er starfsemi Landsvirkjunar öll langtímamiðuð, einmitt það sem lífeyrissjóðirnir eiga að horfa til.

3. Ríkið mundi draga úr eigendaáhættu Landsvirkjunar með þessari aðgerð, og feta sig í átt að norsku leiðinni, sem hefur reynst svo vel. Það er að vera með opinberan kjölfestuhlut í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum, en samt í blönduðu eignarhaldi. Sbr. eignarhaldið á Statoil, þar sem ríkið á 68 prósent hlut en almennir fjárfestir, þar mest fagfjárfestar, eins og lífeyrissjóðir, og fjárfestingasjóðir, eiga afganginn. Þetta styrkir ávöxtunarmarkað fjármagns fyrir almenning í Noregi, og einnig lánshæfi fyrirtækisins.

Þetta er raunhæf leið sem snýst ekki um neinar pólitískar einkavæðingaröfgar eins og sumir eru fljótir að nefna þegar sala á eignum ríkisins ber á góma. En það virðist samt ekki vera neinn pólitískur áhugi á henni, einhverra hluta vegna.






×