Viðskipti innlent

Skýrsla um SPKEF inn á borð sérstaks saksóknara

Magnús Halldórsson skrifar
Skýrsla sem unnin var fyrir Fjármálaeftirlitið um starfsemi SPKEF er komin á borð embættis sérstaks saksóknara en gert er ráð fyrir því að hún verði kynnt fyrir kröfuhöfum sjóðsins á næstu vikum. Stór hluti skulda SPKEF var vegna lausafjárfyrirgreiðslu seðlabankans.

Ólafur Svansson hæstaréttarlögmaður, sem er bústjóri þrotabús SPKEF, segir að skýrsla sem endurskoðunarfyrirtækið PWC vann fyrir Fjármálaeftirlitið um starfsemi sjóðsins fyrir hrun, verði kynnt fyrir kröfuhöfum síðar í þessum mánuði. Hann vildi ekki tjá sig um efnisatriði skýrslunnar þegar fréttastofa leitaði eftir því í morgun, en sagði hana vera eitt af þeim gögnum sem hjálpuðu til við að greina hvers vegna fór sem fór fyrir sjóðnum.

Embætti sérstaks saksóknara hefur fengið skýrsluna afhenta, en Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki væri hægt að veita neinar upplýsingar í hvaða farvegi mál væru sem snéru að sparisjóðnum.

SPKEF mun kosta ríkissjóð nálægt um 26 milljarða króna, þegar allt er talið, en úrskurðarnefnd undir formennsku Ragnars Hall hæstaréttarlögmanns komst að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti að leggja Landsbankanum til 19,2 milljarða króna vegna yfirtöku bankans á öllum skuldbindingum sjóðsins.

Auk vaxta og um 900 milljóna króna eiginfjárframlags til nýstofnaðs sparisjóðs árið 2010, er upphæðin nærri 26 milljörðum.

Upplýst er um það í Fréttablaðinu í dag að skuld SPKEF umfram um 56 milljarða króna innlán viðskiptavina, sé að mestu tilkomin vegna lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabankans við sjóðinn, á síðasta starfsári hans áður en Landsbankinn tók yfir skuldbindingar sjóðsins.

Seðlabankinn neitar að upplýsa frekar um þessa lausafjárfyrirgreiðslu við sjóðinn, sem er langstærstur hluti tæplega 14 milljarða skuldar SPKEF við fjármálafyrirtæki vegna lausafjárvanda sjóðsins. Seðlabankinn ber því við að hann megi ekki tjá sig um einstök viðskipti bankans, samkvæmt lögum um starfsemi seðlabankans.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.