Viðskipti innlent

Ætla að kæra verkfallsboðun til Félagsdóms

Boðun Flugreyjufélags Íslands á verkfalli flugliða hjá Iceland Express eftir viku er ólögleg að mati Iceland Express og verður kærð til Félagsdóms samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir ennfremur: Til verkfallsins er boðað vegna ágreinings fyrirtækisins og Flugfreyjufélagsins sem staðið hefur yfir frá því skömmu eftir að samstarf hófst milli Iceland Express og Holidays Czech Airlines (HCA) í nóvember á síðasta ári. Í lögbundinni rekstrarhandbók HCA er ákvæði um að fyrsta freyja í flugvélum félagsins skuli vera frá HOLIDAYS, þar til aðrir flugliðar hafi hlotið tilætlaða reynslu og þjálfun í störfum í flugvélum þess.

Í dag eru þrír af fjórum flugliðum um borð í flugvélum á vegum Iceland Express félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands en fyrsta freyja kemur frá HOLIDAYS Czech Airlines. Samkvæmt samningi félaganna verður starfsþjálfun og reynsla hluta íslensku flugliðanna orðin nægjanleg til að gegna starfi fyrstu freyju á miðju þessu ári. Þrátt fyrir ítrekaðar samningaumleitanir var stjórn Flugfreyjufélagsins algerlega ósveigjanleg hvað þetta varðar og kaus að túlka forgangsréttarákvæði kjarasamnings félagsins við Iceland Express eins þröngt og mögulegt er og kærði málið til Félagsdóms. Dómurinn komst nýlega að þeirri niðurstöðu að forgangsréttarákvæðið væri algert og án undantekninga. Ágreiningur er um nánari túlkun dómsins. Iceland Express hefur leitast við að finna lausn á þessu máli án undirtekta hjá Flugfreyjufélagi Íslands.

Um áttatíu flugliðar í Flugfreyjufélagi Íslands eru ráðnir til starfa hjá Iceland Express í sumar. Nú hafa 33 af þeim 47 sem sem greiddu atkvæði um tillögu stjórnar Flugfreyjufélagsins um boðun verkfalls, samþykkt verkfallsboðunina. Iceland Express telur þessa verkfallsboðun með öllu ólöglega og mun kæra hana til Félagsdóms og hefur enga trú á að til verkfalls muni koma.

Boðun verkfallsins er undarleg í ljósi þess að fjórir af fimm stjórnarmönnum í Flugfreyjufélaginu eru starfsmenn samkeppnisaðila Iceland Express, Icelandair, og fimmti stjórnarmaðurinn er að hefja störf hjá Wow Air. Þess má geta að þegar Icelandair leigir flugvélar sínar í verkefni erlendis, fylgir fyrsta freyja frá Icelandair með í verkefnunum líkt og gildir hjá tékkneska flugfélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×